Hallormsstaðaskógur er talinn stærstur skóga á Íslandi, um 740 ha. Hann er að mestu náttúrulegur birkiskógur en gerðar hafa verið tilraunir með innfluttar trjátegundir allt frá 1905.
Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í fjölbreyttu landslagi. Í honum eru 11 merktar gönguleiðir. Gönguleiðakort er í kassa við upphaf allra gönguleiða, auk þess má nálgast kortið á Hótel Hallormsstað. Í skóginum er trjásafn með yfir 80 trjátegundum.
Kringum sumarsólstöður ár hvert (21. júní) er haldinn í skóginum Skógardagurinn mikli þar sem m.a. er keppt um Íslandsmeistaratitil í skógarhöggi.
Tjaldsvæði
Í skóginum eru tvö tjaldsvæði: Atlavík í fallegri vík niður við Lagarfljótið umvafið birkiskógi og Höfðavík sem er nýlegt tjaldsvæði með hærra þjónustustigi.