HEIMSÓKN Í ÞJÓÐSKÓGINN

HALLORMSSTAÐUR

VELKOMIN Í HALLORMSSTAÐASKÓG

NJÓTTU LÍFSINS VIÐ LAGARFLJÓT

Hallormsstaðaskógur er talinn stærstur skóga á Íslandi, um 740 ha. Hann er að mestu náttúrulegur birkiskógur en gerðar hafa verið tilraunir með innfluttar tegundir allt frá 1905. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með tjaldsvæðum, merktum gönguleiðum og trjásafni.

Ofanvert Hérað er þekkt fyrir fjölda náttúrudjásna og sögustaða. Á Hallormsstað er t.a.m. rekið hótel með tveimur veitingastöðum og ísbúð með helstu nauðsynjavöru er opin yfir sumarið hjá bensínstöðinni. Í grenndinni finnurðu fjölbreytta gistimöguleika, frábæra veitingastaði og afþreyingu. Upplýsingar um þetta allt er að finna hér á síðunni.

Hvernig kemst ég?

Hallormsstaður er um 27 km frá Egilsstöðum á austurströnd Lagarfljótss. Frá Egilsstöðum er hægt að velja um tvær leiðir að Hallormsstaðaskógi og sumir kjósa að keyra svokallaðan Lagarfljótshring í leiðinni. Hægt er að fara upp austan við Lagarfljót sem er styttri leiðin, 27 km eða vestan við Lagarfljót (um Fell) sem er 40 km.

Ef þú velur að fara upp vestanmegin máttu búast við malarvegi hluta leiðarinnar. Þú beygir út af hringveginum á hæðinni ofan við Lagarfljótsbrúnna í Fellabæ. Þar er vegur nr. 931 merktur og skilti sem benda á Fljótsdal og Skriðuklaustur. Þegar þú kemur inn að Fljótsbotni beygirðu til vinstri yfir stóra brú til að fara stystu leið yfir í Hallormsstað. Einnig er hægt að keyra áfram inn dalinn og fara yfir árnar þar.


Gönguleiðir

Í Hallormsstaðaskógi eru meira en tíu mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins. Allar gönguleiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða.

Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi - gönguleiðir.

Tjaldsvæði

Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi með mismunandi þjónustustigi. Tjaldverðir fara um svæðið og innheimta gjöld fyrir gistingu og annað.

Í Atlavík eru tvö salernishús með heitu og köldu vatni, uppvöskunaraðstaða með heitu vatni, losun fyrir húsbíla, salerni fyrir fatlaða með aðgengi fyrir hjólastóla, útigrill og leiksvæði en engir rafmagnstenglar fyrir hýsi.

Í Höfðavík eru þrjú salernishús með heitu og köldu vatni og í tveimur þeirra eru sturtur. Rafmagnstenglar eru fyrir húsbíla og fellihýsi, losun fyrir húsbíla, salerni fyrir fatlaða með aðgengi fyrir hjólastóla og leiksvæði með stórum ólátabelg.

Nánari upplýsingar um verð og þjónustu á tjalda.is og á Facebook.

Trjásafn

Í Hallormsstaðaskógi er trjásafn með um 80 tegundum trjáa og runna víðsvegar að úr heiminum. Trjásafnið er einstakt á landsvísu. Hefjið gönguna um trjásafnið frá bílastæðinu við þjóðveginn, þar sem einnig er salernishús, og fylgið göngustígnum. Gott er að gefa sér góðan tíma, 2 til 3 klukkustundir til að skoða og njóta útiverunnar. Tilvalið er að ganga niður að Fljótinu, snæða nestið sitt og hlusta á fuglasönginn.

Skógræktarstarf á Hallormsstað hófst árið 1903 með því að girt var 12 ha svæði sem nefnist Mörk. Útbúinn var græðireitur á um hálfum hektara sem var upphaf gróðrarstöðvarinnar. Árið 1905 voru gróðursett um 50 blágrenitré efst í Mörkinni. Af þeim standa enn fimm tré og eru þau elstu grenitrén í Hallormsstaðaskógi, skammt fyrir neðan bílastæðið við trjásafnið. Í áranna rás hafa einstök tré og þyrpingar af ýmsum trjátegundum og kvæmum verið gróðursett í Mörkinni og þannig varð trjásafnið til.

Þjóðskógurinn

Þau lönd sem Skógræktin hefur umsjón með fyrir hönd þjóðarinnar ganga undir heitinu þjóðskógarnir. Skógarnir eru opnir öllum, allan ársins hring, um allt land. Í marga er auðvelt að komast og ýmis konar aðstaða fyrir hendi. Annars staðar þarf að hossast í öflugum jeppa eða ganga upp bratta hlíð í ósnortinn skóg.

Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum, víðs vegar um heiminn.


360° Sýndarferðalag

Skoðaðu svæðið okkar úr lofti!
© 2019 / Ferðaklasi Upphéraðs

For more information on Austurland: