Ferð að fossinum

Hengifoss

Hvernig kemst ég?

Egilsstaðir eru næsta þéttbýli við Hengifoss (35km), kaupstaður sem stendur við hringveginn (veg nr. 1). Frá Egilsstöðum er hægt að velja um tvær leiðir því að Hengifoss er við syðri enda Lagarfljóts og margir sem kjósa að keyra svokallaðan Lagarfljótshring í leiðinni. Annars er annað hvort hægt að fara upp vestan við Lagarfljót (um Fell) eða austan við (um Hallormsstað). Vegalengdin er nánast hin sama, um 35 km.

Ef þú velur að fara upp vestan megin máttu búast við malarvegi hluta leiðarinnar. Þú beygir út af hringveginum á hæðinni ofan við Lagarfljótsbrúnna í Fellabæ. Þar er vegur nr. 931 merktur og skilti sem benda á Fljótsdal og Skriðuklaustur.


Gönguleiðin

Frá bílastæðinu byrjarðu á því að ganga upp tröppur. Síðan tekur við fremur álíðandi malarborinn stígur. Þegar þú ert u.þ.b. hálfnaður upp, um 1,2 km frá bílastæðinu sérðu Litlanesfoss með sína fallegu stuðlabergsumgjörð. Þar liggja slóðir niður í gilið neðan við fossinn en þeir eru brattir og í lausri möl svo að það er vissara að fara varlega ef þú ætlar þér niður í gilið. Alls staðar á gönguleiðinni er rétt að gæta varúðar við gilbarminn þar sem er hætta á að falla fram af og sérstaklega ef börn eru með í för.


Bílastæði og þjónusta

Bílastæðið við Hengifoss er niðri við þjóðveginn þar sem hinn 2,5 km langi göngustígur hefst. Að sumri til getur oft verið örtröð bíla yfir daginn og jafnvel í bjartri sumarnóttinni. Við bílastæðið er hús með tveimur snyrtingum en óheimilt er að gista á bílastæðinu.

Sveitarfélagið Fljótsdalshreppur er búið að skipuleggja stækkun á bílastæði, byggingu nýs þjónustuhúss og endurbætur á göngustígum. Þær framkvæmdir er farnar af stað og lýkur innan fárra ára.


Góð ráð

Fyrir það fyrsta skaltu gefa þér góðan tíma til að heimasækja Hengifoss og nágrenni hans. Það er svo margt fleira áhugavert í grenndinni. Þú getur m.a. kynnt þér það hér á þessari heimasíðu.

Sumarganga
Yfir hásumarið (júlí) getur verið mjög mannmargt við Hengifoss en vanalega er það fyrst og fremst bílastæðið sem að er troðfullt. Ef þú finnur ekki stæði til að leggja í er tilvalið að keyra aðeins lengra inn í dalinn og líta í Snæfellsstofu á Skriðuklaustri (5km) og sjá til hvort að ekki hafi rýmkast á bílastæðinu þegar þú kemur til baka.

Hengifoss og gljúfur hans snýr í suðaustur svo að ef þú vilt sjá fossinn í sólinni þá þarftu að ganga upp að honum að morgni. Í júní og júlí er vanalega nóg vatn í ánni til að fæða fossinn en í ágúst kemur fyrir að áin minnkar svo mikið að fossinn verður sem mjóir strengir, en hæðin er auðvitað alltaf hin sama (128m).


Algengar spurningar

Hvað er Hengifoss hár?

Hengifoss er 128 m hár samkvæmt nýjustu mælingum.

Hvað tekur langan tíma að ganga upp?

Það tekur um 90 mínútur að ganga fram og til baka ef að aðeins er farið upp að útsýnisstað en ekki inn í gljúfrið sjálft. Helmingi skemmri tíma tekur að ganga að Litlanesfossi.

Má vera með dróna á svæðinu?

Sömu reglur gilda um dróna við Hengifoss og annars staðar. Mælst er til þess að menn lágmarki notkun slíkra tækja enda valda þau göngufólki ónæði og hræða dýr og fugla.

Er að hægt að ganga á bak við fossinn?

Nei, það er ekki hægt nema þegar er afar lítið vatn í ánni. Og hættulegt er að fara langt inn í gljúfrið vegna hættu á hruni úr veggjum þess.

Hvar er næsta bensínstöð?

Næsta bensínsstöð er á Hallormsstað, 5 km frá Hengifossplaninu.
© 2019 / Ferðaklasi Upphéraðs

For more information on Austurland: